Færslur: 2007 Júní

22.06.2007 00:23

Mikil hvalagengd á Skjálfanda ...

Lítur út fyrir að raðróðrarferðin þetta árið verði hvalaskoðunarferð, en mikið hefur verið af hval á Skjálfandaflóa undanfarið.

Það eru því meiri líkur á að það verði eitthvað í líkingu við þetta sem við rekumst á, en ekki ísjakar.


Steypireyður í Hellisfirði sumar 2006, mynd ÁL

20.06.2007 10:23

Styttist í raðróðurinnÆtli við sjáum nokkra svona úti fyrir Norðurlandinu?

Lagt verður af stað frá Ólafsfirði kl 14 á sunnudaginn

Gummi Breiðdal, Kalli Geir og Martin stefna á raðróðrarferðina í ár, frá Whales 2005


19.06.2007 00:14

Nýjar fréttir af Freyu og Greg

Samkvæmt áræðanlegum heimildum voru hringfararnir Greg og Freya stödd á Skagatá á þjóðhátíðadaginn.  Þau krossuðu víst þangað yfir frá Trékyllisvík.  Ljóst má vera að þessir "ofurræðarar" munu ekki slást í okkar hóp þegar róið verður frá Ólafsfirði til Húsavíkur í næstu viku.  Þau eru sennilega þegar komin á Ólafsfjörð og miðað við hraðan á þeim gætu þau verið hér á Austfjörðum um svipað leiti og við verðum að róa fyrir norðan.

Greg og Freya við Skagatá

Greg og Freya frá Trékyllisvík að Skagatá 17. júní

17.06.2007 08:16

17.júní Andapollurinn á Reyðarfirði

Kaj tekur þátt í þjóðhátíðardeginum með því að vera með kynningu á kajaksportinu og leyfa fólki að prófa kajak á Andapollinum á Reyðarfirði.  Dagskráin hefst við Andapollinn eftir kl 14.

13.06.2007 19:16

Flott videokvöld

Videokvöldið í gærkvöldi tókst vel og sennilega er fátt sem blæs manni eins mikinn byr í brjóst og að horfa á flinka ræðara takast á við greipar Ægis.  Pizzurnar voru líka ekki af verri endanum en sveppapizzan skaraði þó framúr enda Norðfirðingar með víðtæka þekkingu á meðhöndlun og verkun sveppa.

Þeir sem ekki hafa nú þegar ánetjast kayakasportinu eru hvattir til að mæta við Andapollinn á Reyðarfirði á 17. júní og prófa þetta frábæra sport.

11.06.2007 20:12

Róðrakvöldi breitt í videokvöld

Stjórnin hefur ákveðið að breyta róðrakvöldinu annað kvöld, þriðjudagskvöld, í videokvöld.  Við ætlum að koma saman á hótel Egilsbúð og horfa þar saman á This is the Sea 3 auk þess sem farið verður yfir ferðatilhögun vegna Ólafsjörður-Húsavík ferðarinnar.  Þess má geta að 15 mínútur af myndinni fjallar um Freya Hoffmeister, annan ræðarann sem leitað hefur verið að undanfarna daga.

Mæting á videokvöldið er kl.19:30 eins og vant er á róðrakvöldum. 

Af þessu tilefni býður Hótel Egilsbúð upp á pizzahlaðborð fyrir 1000 kr.


11.06.2007 12:43

Freya og Greg fundin heil á húfi

Freya og Greg fundust heil á húfi nú skömmu fyrir hádegið.  Þau fundust á Rauðasandi á Barðaströnd og hafa því róið a.m.k. 185 km síðan á laugardags morgun.  Þetta eru greinilega ótrúlegir ræðarar en á hinn bóginn þá vantar greinilega eitthvað upp á samskipti þeirra við aðra.  Kaj hefur óljósar fréttir af því að þau hafi verið búin að senda upplýsingar um sig í gegnum gervihnattasíma sem þau eru með, en hafi sent þær á vitlaust netfang.Hér má sjá róðraleið Freyu og Greg á þessum stutta tíma.

11.06.2007 08:32

Kayakræðarar týndir

Nú stendur yfir leit að Freyu Hoffmeister og Greg Stamer. Þau lögðu af stað á laugardagsmorgun í langa ferð, eða um 100 km frá Garði og ætluðu að róa á Arnarstapa á Snæfellsnesi.  Þau ætluðu að láta vita af sér en ekkert hefur frá þeim heyrst. 

10.06.2007 11:23

Farnir 19km í gær. Stefnt á hvalaskodun í Hólmanesi ng enda á Mjóeyri

Farnir 19km í gær. Stefnt á hvalaskodun í Hólmanesi ng enda á Mjóeyri

06.06.2007 18:06

Af félagsróðri, Reyðarfirði, hringförum og raðróðrarferð

Félagsróðurinn í gær tókst vel, 10 ræðarar fóru í Páskahelli, ein óvænt félagabjörgun og allir reynslunni ríkari. 

Leiðangur í Reyðarfjörð.  Alls eru 6 skráðir í fyrstu ferð sumarsins, en stefnt er að því að fara á laugardaginn í Reyðarfjörðinn, gista eina nótt og klára róðurinn á sunnudeginum. Stefnt er að því að leggja af stað frá Vattarnesi, róa inn sunnanverðan Reyðarfjörð og ljúka ferðinni á Hólmum.  Setjum frekari upplýsingar inn þegar nær dregur.  Fararstjóri Ari Ben og nánari upplýsingar í síma 863 9939.

Reyðarfjörður, guli ferillinn sýnir áætlaða leið sem farin verður 9.-10.júní

Í sumar eru 2 ræðarar sem ætla að freista þess að róa hringinn í kringum Ísland, þau Freya Hofmeister og Greg Stamer.   Munu þau leggja upp frá suðvesturhorni landsins og fara réttsælis.  

Frá raðróðraferðinni 2005, Vopnafjörður

Þau verða að halda vel á spöðunum ef þau ætla að ná í raðróðrarferðina, sem hefst sunnudaginn 24. júní frá Ólafsfirði og lýkur á Húsavík.  Alls hafa skráð sig 16 ræðarar í ferðina.  En þessi ferð er einungis fyrir vana ræðara. Stór hluti ferðarinnar er fyrir opnu úthafi og jafnvel róið við erfiðar aðstæður hvað varðar veður og sjólag og skiptir þá miklu máli að ræðarar geti bjargað sér sjálfir. 

Ólafsfjörður-Húsavík, áætluð leið raðróðursins þetta árið

05.06.2007 09:46

Félagsróður og fyrsta ferð sumarsins 9-10. júní

Félagsróður í kvöld á Norðfirði mæting 19:30, þá munum við líka leggja á ráðin með Reyðarfjarðarferðina um helgina ...01.06.2007 21:37

Austan áttin brimar

Ekki er hægt að segja að það sem af er sumri hafi verið gott hér austanlands.  Stöðugar norðan- og austanáttir eru eingöngu til þess fallnar að viðhalda kalda loftinu hérna hjá okkur.  Sjávarhitinn hefur verið 3-4°C og hafa því veltuæfingar í sjó yfirleitt endað með kuldahöfuðverk.
         Eitt er þó gott við austanáttina og það eru úthafsöldurnar sem hún færir okkur hér upp að ströndunum.  Í gær fór t.d. undirritaður í brimreið innst inni í Fáskrúðsfirði og verður það að teljast til tíðinda þar sem öldugangur nær mjög sjaldan hér inn í fjarðarbotn.
         Það er að frétta af "slippnum" að sett hefur verið verkbann á hann næstu vikur eða þar til húsbóndinn á heimilinu er búinn að finna ráð til að loftræsta slippinn betur.  Ástæðan fyrir þessu er að ég var nærri búinn að drepa alla fjölskylduna þegar bátur formannsins var tekinn í slipp um daginn.  Eiturgufurnar af plastefnunum gerðu það að verkum að helmingurinn af fjölskyldunni var með höfuðverki og ógleði næstu tvo daga á eftir.

Kveðjur frá "slippstjóranum".
 
  • 1
Flettingar í dag: 18
Gestir í dag: 8
Flettingar í gær: 50
Gestir í gær: 17
Samtals flettingar: 1006943
Samtals gestir: 160269
Tölur uppfærðar: 12.12.2017 02:37:01

Upplýsingar

Nafn:

Kajakklúbburinn Kaj

Farsími:

863 9939

Afmælisdagur:

stofnaður árið 1993

Staðsetning:

Neskaupstað

Heimasími:

477 1650

MySpace vefsíða:

http://tinyurl.com/o9p9fzo

Um:

Endilega sendið inn efni á vefinn á ofangreint netfang

Kennitala:

661006 1880

Bankanúmer:

1106-26-1006 1106-15-550415 168-05-60984

Tenglar

eXTReMe Tracker